Saga bókasafnsins

Bókasafn Hafnarfjarðar tók til starfa þann 18. október 1922 í litlu herbergi í suðurenda gamla barnaskólans við Suðurgötu. Gunnlaugur Kristmundsson kennari og sandgræðslumaður var aðalhvatamaður að stofnun bókasafnsins.

Framtak hans varð til þess að samþykkt var í bæjarstjórn þann 8. mars 1921 að stofnað skyldi bókasafn til frjálsra afnota fyrir bæjarbúa. Áður hafði verið gerð tilraun með lestrarfélög í bænum sem komu að talsverðu gagni en stofnað hafði verið til þeirra af vanefnum og var því bókakostur þeirra frekar rýr. Lestrarfélagið Framför var starfandi frá 1907 til 1917 en þegar Gunnlaugur  tók að beita sér fyrir stofnun bókasafns var ekkert lestrarfélag starfandi í Hafnarfirði.

Árið 1928 flutti safnið í kennslustofu í barnaskólanum úr litla herberginu  og þar var safnið staðsett fram til 1938 þegar það var flutt í rúmgott húsnæði á efri hæð í austurálmu hins nýja Flensborgarskóla á Hamrinum.

Eftir seinni heimsstyrjöldina stækkaði bókasafnið hratt og þá var farið að leita að heppilegu húsnæði fyrir safnið. Árið 1948 fór bókasafnsnefnd þess á leit við bæjarstjórn að safnið fengið lóð við Mjósund undir nýtt bókasafn og gekk það eftir.

Þann 31. maí 1958 var hið nýja bókasafn við Mjósund 12 vígt við hátíðlega athöfn. Arkitekt af húsinu var Sigurður J. Ólafsson bæjarverkfræðingur. Fyrstu árin notaði bókasafnið bara neðri hæð hússins það var ekki fyrr en 1972 að bókasafnið fékk allt húsnæðið til afnota um 536 fermetra þar var bókasafnið til húsa í tæp 44 ár.

Það var svo þann 20. apríl 2002 sem Bókasafn Hafnarfjarðar flutti að Strandgötu 1 í húsnæði sem er um 1.500 fermetrar að stærð og bókasafnið er til húsa í dag.

Yfirbókaverðir / forstöðumenn

  • Anna Guðmundsdóttir 1955 – 1970
  • Þorbjörg Björnsdóttir 1971 – 1992
  • Anna Sigríður Einarsdóttir 1992 – 2015
  • Óskar Guðjónsson 2015 – 2019
  • Sigrún Guðnadóttir 2019 –

Friðriksdeild

Árið 1958 leituðu hjónin Guðlaug Pétursdóttir og Friðrik Bjarnason tónskáld ráða hjá Önnu Guðmundsdóttur, þáverandi yfirbókaverði, um hvernig hægt væri að varðveita bækur og muni þeirra hjóna í bókasafninu að þeim látnum. Friðrik var alla tíð mikill notandi safnsins, vinur þess og velunnari. Anna lagði til að stofna tónlistardeild við bókasafnið þar sem tónlistarsafn þeirra hjóna yrði grunnurinn og fékk hún síðan Pál Kr. Pálsson organleikara til þess að vinna að undirbúningi að stofnun deildarinnar. Bæjaryfirvöld samþykktu að veita kr. 10.000 sem stofnfé til tónlistardeildar á árinu 1959.

Það var nýju tónlistardeildinni mikill fengur að fá safn Friðriks Bjarnasonar árið 1960. Var nýja deildin nefnd Friðriksdeild og henni til bráðabirgða komið fyrir í námsherbergi, en það húsnæði var frá upphafi allt of lítið. Sérstaklega varð þröngt um deildina, eftir að ákvörðun var tekin um að kaupa gamlar íslenskar hljómplötur sem í næðist og merkar plötur aðrar með mismunandi tónlist. Starfsemi deildarinnar jókst enn að miklum mun þegar ákveðin voru útlán á hljómplötum í árslok 1966.

Friðriksdeild er ein af stærstu tónlistardeildum á almenningsbókasafni á Íslandi. Safnið er hið merkasta og samanstendur af 2000 bindum af bókum, nótum og músíkblöðum, margt af því ófáanlegt annars staðar og því ómetanlegt.

Heimildir:

– Stefán Júlíusson. “Bókasafnið í Hafnarfirði, fimmtíu ára”. Bæklingur útg. 1972

– Guðmundur B. Guðmundsson, sonur Önnu Guðmundsdóttur, fyrrverandi yfirbókavarða