Klúbba- og hópastarf
Bókasafnið stendur fyrir klúbba- og hópastarfi bæði fyrir börn og fullorðna. Öllum er frjálst að sækja um leyfi til að nýta húsnæði bókasafnsins til klúbbastarfs að undanskildum trúar- og stjórnmálasamkomum.
Eftirfarandi hópar eru virkir á Bókasafni Hafnarfjarðar.
Anna
Fjölmenningarverkefni Bókasafns Hafnarfjarðar, miðað sérstaklega að konum.
Hist er fjórða laugardag hvers mánaðar og spjallað, haldin námskeið, hlustað á fyrirlestra, farið í sérstakar ferðir, málað eða spilað, svo dæmi séu nefnd.
Dagskráin er þátttakendum ávallt að kostnaðarlausu.
Lestrarfélagið Framför
Lestrarfélagið er elsti starfandi hópur Bókasafns Hafnarfjarðar, og er sem áður í traustum höndum Hjalta Snæs Ægissonar, bókmenntafræðings með meiru. Árið 2022 mun hópurinn hittast annan miðvikudag mánaðar kl 17:15 og pæla í bók mánaðarins.
Farið er um víðan völl innan bókmennta, allt frá léttum reifurum yfir í heimsbókmenntir skoðaðar og kynntar og ræddar yfir kaffibolla og kruðeríi.
Fyrsti hittingurinn mun vera opnun annarinnar, auk bókakynninga og höfundaspjall, en þemað að þessu sinni er fátækt, og birtingarmyndir hennar í bókmenntum.
Fyrstu gestir Hjalta verða höfundar hinnar nýútkomnu bókar „Þættir af sérkennilegu fólki“, en í henni er fjallað um fólk sem var á einhvern hátt hornreka í samfélögum fyrri tíðar og hvernig það bæði náði að þrauka þorrann og góuna og um leið að hafa áhrif á samtíð sína með margvíslegum hætti. Gerð er tilraun til að skilja „menningu fátæktar“, þ.e. hvernig Íslendingar gerðu ráð fyrir að fátækt þrifist hér á landi í einni eða annarri mynd.
Leslistinn fyrir vorið 2022 er eftirfarandi:
- 12. janúar – Sigurður Gylfi Magnússon o.fl.: Þættir af sérkennilegu fólki (kynning og höfundaspjall)
- 9. febrúar – Sofi Oksanen: Hundagerðið
- 9. mars – Viola Ardone: Barnalestin
- 13. apríl – Aravind Adiga: Hvíti tígurinn
- 11. maí – Steinunn Sigurðardóttir: Systu megin
Árið 2021 var Lestrarfélagið Framför í fríi vegna aðstæðna
Reglulega voru gefnir út hlaðvarpsþættirnir Síðasta lag fyrir myrkur þar sem Hjalti Snær leiddi okkur inn í kvöldið með bókum, sögum, sagnfræði og tónlist í bókmenntahlaðvarpi Bókasafns Hafnarfjarðar, einn eða með góðum gestum. Helltu upp á kaffi, sestu í uppáhaldsstólinn þinn og komdu með. Þættirnir eru aðgengilegir á öllum hlaðvarpsveitum og á Facebooksíðu bókasafnsins.
Umsjónarmaður: Dr. Hjalti Snær Ægisson bókmenntafræðingur
Þættir Síðasta lags fyrir myrkur:
- Stóra bókin um sjálfsvorkunn e. Ingólf Eiríksson – 26. nóvember 2021
- Stormfuglar og Þung ský e. Einar Kárason – 5. nóvember 2021
- Í Gullhreppum e. Bjarna Harðarson – 30. september 2021
- Í skugga Drottins e. Bjarna Harðarson – 9. júlí 2021
- Blóðberg e. Þóru Karítas Árnadóttur – 15. júní 2021
- Blóðug jörð e. Vilborgu Davíðsdóttur – 28. maí 2021
- Vígroði e. Vilborgu Davíðsdóttur – 25. mars 2021
- Auður e. Vilborgu Davíðsdóttur – 1. febrúar 2021
- Undir Yggdrasil e. Vilborgu Davíðsdóttur – 14. janúar 2021
- Beðið eftir Barbörunum e. J.M. Coetzee – desember 2020
Foreldramorgnar
Foreldramorgnar eru haldnir í fjölnotasal Bókasafns Hafnarfjarðar reglulega á mánudögum kl. 10:00 – 12:00 yfir vetrartímann.
Foreldramorgnarnir eru hugsaðir sem notaleg samverustund og vettvangur fyrir foreldra til að koma saman með börn sín og spjalla yfir kaffi og meðlæti. Reglulega er boðið upp á ýmsar fróðlegar kynningar um efni sem tengist barneignum og uppeldi auk þess sem bókasafnið geymir mikið úrval af bókum um börn og uppeldi.
Nánari upplýsingar er að finna á Facebook-hópnum.
Athugið að öllum er velkomið að hafa samband með hugmyndir um efni sem áhugi er fyrir að láta fjalla um eða koma með uppástungur um fyrirlesara.