Klúbba- og hópastarf

Bókasafnið stendur fyrir klúbba- og hópastarfi bæði fyrir börn og fullorðna. Hver klúbbur er haldinn aðra hverja viku. Öllum er frjálst að sækja um leyfi til að nýta húsnæði bókasafnsins til klúbbastarfs að undanskildum trúar- og stjórnmálasamkomum.

Eftirfarandi hópar eru virkir á Bókasafni Hafnarfjarðar.

Anna

Fjölmenningarverkefni Bókasafns Hafnarfjarðar, miðað sérstaklega að konum.

Hist er þriðja laugardag hvers mánaðar og spjallað, haldin námskeið, hlustað á fyrirlestra, farið í sérstakar ferðir, málað eða spilað, svo dæmi séu nefnd.

Anna á Facebook

Dagskráin er þátttakendum ávallt að kostnaðarlausu.

Lestrarfélagið Framför

Bókmenntaklúbbur Bókasafns Hafnarfjarðar hittist annan hvern miðvikudag í mánuði kl. 19:00.

Í hverjum mánuði er lesin ein bók sem síðan er rædd á fundinum. Á fundum lestrarfélagsins er hægt að fá sér heitt kaffi eða te og segja sína skoðun á bókinni sem lesin var – eða einfaldlega hlusta á það sem hinir hafa að segja.

Umsjónarmaður: Dr. Hjalti Snær Ægisson bókmenntafræðingur

Foreldramorgnar

Foreldramorgnar eru haldnir í fjölnotasal Bókasafns Hafnarfjarðar annan hvern mánudag kl. 10:00 – 12:00 yfir vetrartímann.

Foreldramorgnarnir eru hugsaðir sem notaleg samverustund og vettvangur fyrir foreldra til að koma saman með börn sín og spjalla yfir kaffi og meðlæti. Reglulega er boðið upp á ýmsar fróðlegar kynningar um efni sem tengist barneignum og uppeldi auk þess sem bókasafnið geymir mikið úrval af bókum um börn og uppeldi.

Nánari upplýsingar er að finna á Facebook-hópnum.

Foreldramorgnar á Facebook

Athugið að öllum er velkomið að hafa samband með hugmyndir um efni sem áhugi er fyrir að láta fjalla um eða koma með uppástungur um fyrirlesara.

Hannyrðaklúbbur

Handavinnuhópurinn kemur saman annan hvern miðvikudag kl. 17:00-19:00 yfir vetrarmánuðina.

Hópurinn hittist á 2.hæð bókasafnsins. Boðið er upp á aðstoð og kennslu í grunnatriðum, en Aðalbjörg Sigþórsdóttir leiðir hópinn og er bæði byrjendum og lengra komnum innan handar.