Strandgata 1 hefur í gegnum tíðina hýst ýmiss konar starfsemi. Þar á meðal húsgagnaframleiðslu, banka, hársnyrtistofu, félagsmiðstöð og útvarpsstöð, skemmtistað með margrómuðum frönskum og nú Bókasafn Hafnarfjarðar. Bókasöfn nútímans eru langt frá því að vera heilög grafhýsi rykfallinna bóka líkt og áður. Þau eru orðinn samfélagslegur vettvangur sköpunar, samræðna, miðlunar og menningar. Hlutverk bókasafna hefur breyst í takt við þarfir notendahópsins. En hvert er hlutverk notendahópanna gagnvart bókasöfnunum? Er pláss í samfélaginu fyrir öll ritverkin? Eiga allar upplýsingar og samræður rétt á sér? Hæfniviðmið: Heimsóknin er hugsuð sem áhugaverður námsvettvangur fyrir nemendur á miðstigi grunnskóla. Í heimsókninni gefst m.a. færi á að efla eftirfarandi hæfniviðmið íslensku og samfélagsgreina skv. aðalnámskrá: Rætt viðfangsefni sem snerta trú, lífsviðhorf og siðferði og sett í samhengi við atburði daglegs lífs Rökrætt um ólík málefni af samfélagslegum og siðferðilegum toga Lesið texta við hæfi með góðum hraða og af skilningi, lagt mat á hann og túlkað Lesið sér til ánægju og fróðleiks og gert öðrum grein fyrir þeim áhrifum sem texti hefur á hann Fyrirkomulag heimsóknar: Fræðslufulltrúi tekur á móti nemendum í anddyri bókasafnsins og heldur létta kynningu um starfsemi bókasafnsins. Því næst verður kynning og umræður um ritstýringu og upplýsingaveitur. Að lokum vinna nemendur verkefni í tengslum við bannaðar bækur. Heimsóknin tekur um klukkustund og hægt er að bóka hér með því að velja „Safnfræðsla: Hávaði, hlaup og ærsl“ í valstikunni.