Safnanótt 2026

Safnanótt verður á sínum stað, fyrsta föstudag í febrúar!
Húsið opnar kl 18:00 með kaffi, súkkulaði og rólegri stemmingu. Við verðum með borðspil á tónlistardeildinni og saumasmiðjan verður í boði á 2. hæð, þar sem Heimateymisfólk verður við vinnu. Smiðja ætluð yngri kynslóðinni verður frá 18:15 til 19:45, hentug fyrir litla putta sem vilja fá að potast í saumaskap. Efni á staðnum.

Klukkan 19:30 mætir hljómsveitin LEA, skipuð af vinunum Katrínu, Láru og Ella sem kynntust í Menntaskóla í tónlist og hafa brallað ýmislegt saman síðan þá. Tónlist þeirra er innblásin af indípoppi og þjóðlagatónlist og leggur áherslu á persónulega og ljóðræna texta. Innblástur í lagasmíðina draga þau frá fólkinu í kringum sig og fagurri náttúru heimalandins. Tveir meðlimir sveitarinnar, Katrín og Lára, munu leika á gítarinn og syngja ný og eldri lög fyrir gesti og gangandi.

Klukkan 20:10 fer svo í gang smiðja og aðstoð við eldri hönnuði og handavinnufólk í saumasmiðjunni – og öllum gefst tækifæri á að prófa handavinnu úr heimi sögulegrar klæðagerðar undir leiðsögn Hugrúnar Óskar, klæðskerameistara.

Húsið lokar kl 22:00