Rithöfundurinn Ása Marin les úr bókinni sinni Hittu mig í Hellisgerði – í Hellisgerði – laugardaginn 23. nóvember kl. 14. Viðburðurinn er í samstarfi við Bókasafn Hafnarfjarðar og Jólabæinn Hafnarfjörð. Bókin Hittu mig í Hellisgerði er bráðskemmtileg og rómantísk vetrarsaga. Söguþráðurinn er grípandi og segir frá því þegar jólin hafa verið eyðilögð fyrir Snjólaugu. Barnsfaðir hennar ætlar að vera erlendis með dóttur þeirra í þrjár heilar vikur yfir hátíðarnar og Snjólaug sér fram á afar einmanalegt aðfangadagskvöld. Þá fær hún hugljómun: Hún ætlar að finna ástina í tæka tíð fyrir klukknahringinguna í Ríkisútvarpinu. Bókin er ekki fyrsta skáldsaga Ásu Marinar heldur sú fimmta. Auk þess hefur hún skrifað eina nóvellu og tvær ljóðabækur.