Gunnar Helgason varð nýlega 60 ára og vill af því tilefni þakka öllum þeim börnum sem hafa lesið bækurnar hans í gegnum tíðina. Hann ætlar semsagt að skemmta börnum á Bókasafni Hafnarfjarðar! Gunnar ætlar að lesa uppáhaldskaflana úr nokkrum bóka sinna og auðvitað úr nýju bókinni, Birtingur og símabannið mikla. Gunnar tekur líka við óska-köflum í athugasemdum í viðburðinum á Facebooksíðu bókasafnsins! Svo verður hann með leynigest sem mun kannski taka lagið með honum og lesa úr sinni eigin bók. Það er líklegra en ekki að leynigesturinn heiti (Fimm stafa nafn sem merkir lukka eða hamingja á latínu)! Það eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir svo það er kannski vissara að mæta tímanlega. Eftir viðburðinn fara allir í Jólaþorpið þar sem Gunni ætlar ásamt félaga sínum að árita bækurnar sínar fyrir þá sem vilja. Hlökkum til að sjá ykkur í Bókasafni Hafnarfjarðar klukkan 13.00 þann 20. desember.