Örsagnaritsmiðja á hrekkjavöku: Hrollvekjandi glæpasögur!

Er höfuðið fullt af hugmyndum? Hefurðu í senn áhuga á glæpasögum og hrollvekjum? Langar þig að spreyta þig á að blanda ólíkum hugmyndum saman? Bókasafn Hafnarfjarðar býður upp á örsagnasmiðju undir handleiðslu Emils Hjörvars Petersen þann 22. október kl. 16:30-18:30.

Rithöfundurinn Emil Hjörvar Petersen leiðir smiðjuna en hann er einmitt þekktur fyrir að skeyta bókmenntagreinum saman. Eftir hann liggja ellefu skáldsögur, þar á meðal verðlaunabókin Víghólar, sem er glæpafantasía, og hin geysivinsæla Dauðaleit, sem er glæpahrollvekja. Áður en umræður og skrif hefjast fer Emil stuttlega yfir söguuppbyggingu, hvað helst ber að hafa í huga við skriftir og hvetur þátttakendur til að láta gamminn geisa. Engin hugmynd er of hryllileg, það er hægt að vinna með allt, það þarf bara að finna leiðina.

Glæpahryllingur er hluti af viðburðaröðinni Glæpafár á Íslandi í 25 ár sem fer fram í tilefni aldarfjórðungs afmælis Hins íslenska glæpafélags, og er styrktur af Bókasafnasjóði.

30 sæti eru í boði og skráning fer fram í gegnum tölvupósti á [email protected].

Skriffæri og pappír verða á staðnum en þátttakendum er velkomið að taka með eigin glósubækur og/eða fartölvur.