GEGNUMTREKKUR, RAGN OG RÓL – Einar Lövdahl á Safnanótt Verið velkomin á þríþætt höfundarkvöld á Bókasafni Hafnarfjarðar í tilefni af Safnanótt þar sem gestur kvöldsins verður Einar Lövdahl – rithöfundur, tónlistarmaður og íslenskufræðingur. Í upphafi dagskrár mun Einar segja stuttlega frá skáldsögunni Gegnumtrekkur, sem kom út hjá Máli og menningu í fyrra, og lesa upp brot úr bókinni. Að því loknu mun hann flytja frumsamin lög með grátbroslegum textum sem fjalla um mann sem móðgast, eirðarleysi og sveimhygli, og gráma höfuðborgarsvæðisins, svo fátt eitt sé nefnt. Til að halda þorrann hátíðlegan mun Einar slá botninn í dagskrána með léttum fyrirlestri um blót í íslensku nútímamáli – en þess má til gamans geta að BA-ritgerð Einars í íslensku fjallaði um blótsyrðið „fokk“ og skyld orð í málfræðilegu samhengi. Ætti „sjitturinn“ að öðlast sess í íslenskri orðabók? Af hverju ætli Íslendingum sé svo tamt að ákalla myrkrahöfðingjann? Hvernig hefur „fokk“ rutt sér til rúms í hinu ástkæra, ylhýra máli?