„Þegar hátíð fer í hönd, búa menn sig undir hana, hver á sína vísu.“ – Á þessum orðum hefst smásaga Gunnars Gunnarssonar, Aðventa. Þessi hlýja saga færir mörgum jólin, en hún er byggð á sannri sögu úr frásögnum Benedikts Sigurjónssonar, einnig þekktum sem Fjalla-Bensa, sem heldur á aðventunni upp á öræfin ásamt smalahundinum Leó og forustusauðnum Eitli í leit að eftirlegukindum – til að koma þeim í hús fyrir hátíðirnar. Samskipti manns, náttúru og dýra, kærleikur og fórnfýsi eru þungamiðja sögunnar, og verður hún flutt af leikurunum Arnmundi Ernst og Sveini Óskari í heild sinni, yfir heitum drykkjum og kertaljósum. Flutningur er rétt rúmir tveir tímar.