Líður að jólum og nýir titlar flæða í hillurnar, okkur til mikillar gleði. Bókasafn Hafnarfjarðar hampar vel völdum höfundum og framlagi þeirra til jólabókaflóðsins í hverri viku nóvembermánaðar á mánudögum kl. 17:30. Lokar augum blám er þriðja bók Margrétar S. Höskuldsdóttur og önnur bókin sem fjallar um lögregluteymið Rögnu og Berg. Þetta er Vestfjarðaglæpasaga í klassískum anda sem fær hárin til að rísa. Á miðju sumri hverfa tveir ungir kajakræðarar sporlaust vestur í Dýrafirði. Rannsóknarlögreglumaðurinn Bergur er fluttur á Flateyri og tekur málið að sér, ásamt fyrrverandi samstarfskonu sinni, Rögnu, sem er kölluð vestur. Á sama tíma vinnur par að endurbótum á gömlu húsi á Flateyri. Eftir ógæfusöm ár í höfuðborginni þrá þau kyrrlátt líf á fallegum stað en húsið reynist eiga sér nöturlega sögu.