Dregur að jólum – og nýir titlar flæða í hillurnar. Bókasafn Hafnarfjarðar hampar vel völdum höfundum og framlagi þeirra til jólabókaflóðsins í hverri viku nóvembermánaðar, á þriðjudögum kl. 17:30. Fyrsti höfundurinn er Brynja Hjálmsdóttir, skáld og rithöfundur, með bókina Friðsemd, sem er hennar fyrsta skáldsaga. Áður hefur hún gefið út tvær ljóðabækur. Brynja fæddist í Reykjavík árið 1992. Hún er handhafi Hvatningarverðlauna Vigdísar Finnbogadóttur og Ljóðstafs Jóns úr Vör, sem hún hlaut árið 2022 fyrir ljóðið Þegar dagar aldrei dagar aldrei. Fyrir sína fyrstu bók, Okfrumuna (2019), fékk Brynja tilnefningu til Fjöruverðlaunanna og hlaut Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana. Okfrumunni var meðal annars lýst sem „einni áhugaverðustu ljóðabók ársins“ í ritrýni Soffíu Auðar Birgisdóttur, sem sagði jafnframt:„Sjaldgæft er að sjá svo sterkt byrjandaverk sem þessa bók“. Kona lítur við, sem kom út 2021, fékk tilnefningu til ljóðaverðlauna Maístjörnunnar.