Verðlaunahafar í sumarlestri og fjársjóðsleit bókasafnsins

Fréttir

Ísabella Magna í Engidalsskóla, Marta Ísabel úr Áslandsskóla og Þorbjörg Hekla, Víðistaðaskóla, fengu á dögunum verðlaun fyrir eftirtektarverð verk úr sumarlestrar-fjársjóðsleit Bókasafns Hafnarfjarðar og skólabókasafnanna í Hafnarfirði.

Sumarlestur 2025

Sumarlestur er lífsins leikur!

Ísabella Magna í Engidalsskóla, Marta Ísabel úr Áslandsskóla og Þorbjörg Hekla, Víðistaðaskóla, fengu á dögunum verðlaun fyrir eftirtektarverð verk úr sumarlestrar-fjársjóðsleit Bókasafns Hafnarfjarðar og skólabókasafnanna í Hafnarfirði.

Ísabella samdi söguna Bölvaði pizzastaðurinn, Marta Ísabel samdi Vorið og Þorbjörg Hekla söguna Brjálaðir tómatar. Verkin, ásamt þeim sextán frambærilegustu, eru aðgengileg öllum sem vilja skoða þau á fyrstu hæð bókasafnsins.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri, óskaði vinningshöfunum til hamingju og hélt litla tölu. „Sumarlesturinn var með nýju sniði í ár. Mjög áhugavert og gaman að sjá hve mörg börn tóku þátt og lögðu sig fram,“ sagði hann meðal annars.

„Lestur er gífurlega mikilvægur og brýnt að börnin lesi yfir sumartímann svo þau missi ekki niður þá lestrarfærni sem þau hafa tileinkað sér í skólanum. Sumarlesturinn hjá bókasafninu er mikilvægt innlegg í það verkefni að fá börnin til að lesa. Ég þakka starfsfólki kærlega fyrir að skipuleggja þetta og óska svo öllum þeim sem tóku þátt til hamingju.“

Hlýleg uppskeruathöfn

Athöfnin var afar hlýleg og lágstemmd á Bókasafninu. Þar komu fjölskyldur vinningshafa saman sem og starfsfólk bókasafnsins og fögnuðu uppskerunni.

Sumarlesturinn 2025 gekk út á að hvetja nemendur til að senda inn ljóð og örsögur. Alls bárust 109 gild verk innan tímafrests frá 107 þátttakendum. Þau voru plöstuð inn og komið fyrir víðsvegar um bæinn. Mörg hafa eflaust rekið augun í skær plöstuð spjöld í sumar. Spjöldin urðu uppspretta að skemmtilegum könnunarleiðöngrum um bæinn.

Hugrún Margrét, deildastjóri barna-og ungmennadeilda á Bókasafni Hafnarfjarðar, segir tíma hafa verið kominn á breytingar á formi sumarlestursins. Unnið hafi verið með skólabókasöfnunum í ár og innsendingarkössum komið fyrir þar. Skólabókasafnsfræðingarnir hafi svo hvatt bæði kennara og nemendur til þátttöku.

Börnin fengu að skapa

„Þau eru allt skólaárið að skrifa niður hvað þau lesa. Mig langaði því að vera gagnvirkari og heyra raddir þeirra. Þetta var líka kjörið tækifæri til að dreifa barnamenningu um bæinn okkar,“ segir Hugrún Margrét um nýja fyrirkomulagið.

„Við sjáum á sögunum að krakkar taka eftir því sem gerist í kringum þau. Það er svo gaman að sjá það. Lesa má sögu þar sem Elon Musk dúkkar upp, endurvinnsla, hellisbúar, bæjarstjórinn. Það var virkilega gaman að fá svona innsýn,“ segir hún. Ljóð hafi líka ratað í keppnina í ár.

„Eitt tregaljóð er mjög eftirminnilegt. Það fjallaði um missi og gefur afar góða innsýn inn í huga- og tilfinningalíf barns.“

Já, þetta er sannkölluð uppskera. Innilega til hamingju öll. Endilega kíkið á bókasafnið okkar og njótið afrakstur sumarsins.