Klúbba- og hópastarf

Bókasafnið stendur fyrir klúbba- og hópastarfi fyrir börn, ungmenni og fullorðna. Öllum er frjálst að sækja um leyfi til að nýta húsnæði bókasafnsins til hvers kyns klúbbastarfs fyrir utan trúar- og stjórnmálasamkomur.

Anna

Fjölmenningarverkefni Bókasafns Hafnarfjarðar sem miðar sérstaklega að konum.

Hópurinn hittist fjórða laugardag í hverjum mánuði. Þá er til dæmis spjallað, haldin námskeið, hlustað á fyrirlestra, farið í sérstakar ferðir, málað eða spilað. Dagskráin er alltaf ókeypis.

Skynjunarstund Plánetu

Við bjóðum litlum krílum að koma og leika! Siggi og Joreka frá Plánetu–skynjunarleik standa fyrir þroskandi og örvandi hittingi fyrir minnstu krílin. Þar geta þau leikið og kannað heiminn á litríkan og skemmtilegan máta með öðrum börnum.

Plánetustundir eru tvisvar í mánuði, fyrsta mánudag og þriðja fimmtudag hvers mánaðar, til skiptis að morgni og eftirmiðdegi.

Kaffi í boði fyrir foreldra og allir velkomnir!

Lestrarfélagið Framför

Lestrarfélagið er elsti starfandi hópur Bókasafns Hafnarfjarðar, og er sem áður í traustum höndum Hjalta Snæs Ægissonar, bókmenntafræðings með meiru. Farið er um víðan völl innan bókmennta, allt frá léttum reifurum yfir í heimsbókmenntir, sem eru skoðaðar og kynntar og ræddar yfir kaffibolla og kruðeríi.

Árið 2024 mun hópurinn hittast annan miðvikudag hvers mánaðar kl. 19:30 og pæla í bók mánaðarins. Þema vetrarins er íslenska nýraunsæið.

Leslisti veturinn 2023-24

  • 11. október: Vésteinn Lúðvíksson: Gunnar og Kjartan (1971-1972)
  • 15. nóvember: Málfríður Einarsdóttir: Samastaður í tilverunni (1977)
  • 13. desember: Guðlaugur Arason: Eldhúsmellur (1977)
  • 10. janúar: Magnea J. Matthíasdóttir: Hægara pælt en kýlt (1978)
  • 14. febrúar: Guðmundur Steinsson: Stundarfriður (1979)
  • 13. mars: Ása Sólveig: Treg í taumi (1979)
  • 10. apríl: Auður Haralds: Læknamafían (1980)
  • 8. maí: Ólafur Haukur Símonarson: Vík milli vina (1983)

Hjalti Snær gefur reglulega út bókmenntaþættina Síðasta lag fyrir myrkur á Hlaðvarpi Bókasafns Hafnarfjarðar.

Pókemon klúbbur

Föngum þá alla! Pokémon-klúbbur fyrir krakka 10 ára og eldri á þriðjudögum á milli kl. 15:00 og 17:00. Pokémeistari er á svæðinu sem kennir reglurnar og kemur krökkum af stað í spilinu.

Stokkar eru í boði á svæðinu en auðvitað má líka koma með eigin spil og Pokémeistarinn aðstoðar við að setja þau saman í góðan stokk.