Aðstaða

Bókasafn Hafnarfjarðar býður upp á fjölbreytta aðstöðu fyrir fólk á öllum aldri. Hægt er að bóka rými fyrir fundi, námskeið, listasýningar og margt fleira.

Fjölnotasalur

Í kjallara bókasafnsins er salur fyrir fundi og litla viðburði á afgreiðslutíma bókasafnsins. Ef salurinn er ekki bókaður fyrir starfsemi bókasafnsins eða Hafnarfjarðarbæjar er mögulegt að fá salinn að láni fyrir klúbba, hópa og minni samkomur.

Aðstaða

  • Skjávarpi.
  • Borð og stólar í boði.
  • Lítill eldhúskrókur.

Fyrirspurnir um fjölnotasalinn má senda á [email protected].

Glerrýmið

Glerrýmið er lítið les- og sýningarrými á 3. hæð bókasafnsins. Það er hentugt fyrir litlar vinnusmiðjur og listasýningar. Nafnið er tilkomið af glerveggjum sem skarta útsýni eftir allri Strandgötunni.

Glerrýmið er opið öllu listafólki sem hefur áhuga á að sýna þar. Venjan er að hver listamaður fái að hafa verkin sín uppi í 4 vikur án endurgjalds. Bókasafnið býður upp á að hafa verkin til sölu ef vilji er til þess, listamanni að kostnaðarlausu.

Fyrirspurnir um Glerrýmið má senda á [email protected].

Græjurými

Græjurýmið er í glerhýsi á 2. hæð og er fyrir 15 ára og eldri. Þar er netkaffi með ókeypis aðgangi að tölvum, þrívíddarprentari, vínilskeri og hitapressa til að prenta á boli.

  • Ókeypis aðgangur að Internetinu.
  • Ekki er hægt að vista gögn í tölvunum.
  • Hægt er að skanna inn og senda skjöl í tölvupósti.
  • Útprentun og ljósritun (A4) er í boði gegn gjaldi samkvæmt gjaldskrá.

Krílahornið

Á barnadeildinni er sérstakt Krílahorn með gjafaaðstöðu. Lokanlegt hlið er inn á barnadeildina svo litlir lestrarhestar geti gengið frjálsir um. Þar eru þægilegir grjónapúðar, harðspjaldabækur og fleira sem henta krílum.

Börn og fjölskyldur eru hvött til að koma á barnadeildina og vera saman við lestur, leik og spilamennsku.

Lesaðstaða

Á 2. hæð eru borð og stólar á mörgum stöðum þar sem fólki er velkomið að koma sér fyrir með bækur eða tölvur.

Lesstofa

Á 3. hæð er lesstofa fyrir 16 ára og eldri þar sem er gott að læra eða vinna í rólegheitum. Lesstofan er opin á sama tíma og bókasafnið.

Á lesstofunni, sem og á bókasafninu öllu, er opið, þráðlaust net. Til að prenta út þarf að nota tölvur í netkaffinu.

Setustofa

Í Setustofunni á 1. hæð er hægt að sitja og fletta dagblöðum, tímaritum eða bókum og eiga notalega stund. Boðið er upp á kaffi og hægt að tefla eða spila. Þar eru einnig DVD-myndir, hljóðbækur og munasafn.