Réttindahorn á barnadeildinni

Fréttir

Sérstakt horn, sem kallast Réttindahorn og er hilla með bókum sem efla réttindavitund, er nú komið upp á Bókasafni Hafnarfjarðar. Þar má finna bækur sem tengjast Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Bækurnar eru fyrir lesendur á öllum aldri. Réttindahornið er liður í að efla Hafnarfjarðarbæ sem barnvænt samfélag.

Hugrún réttindahorn 2025

Aukinn sýnileiki og réttindafræðsla á Bókasafni Hafnarfjarðar 

Sérstakt horn, sem kallast Réttindahorn og er hilla með bókum sem efla réttindavitund, er nú komið upp á Bókasafni Hafnarfjarðar. Þar má finna bækur sem tengjast Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Bækurnar eru fyrir lesendur á öllum aldri. Réttindahornið er liður í að efla Hafnarfjarðarbæ sem barnvænt samfélag.

„Bókasafninu er annt um hag barna og telur því mikilvægt að samfélagið þekki og standi vörð um réttindi þeirra. Þessar völdu bækur veita innsýn í ýmis efni sem barnasáttmálinn nær til,“ segir Þórunn Þórarinsdóttir, verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags hjá Hafnarfjarðarbæ.

Dæmi um bækur í Réttindahorninu eru;

  • Vertu ósýnilegur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur
  • Halastjarnan eftir Tove Jansson
  • Skólinn hans Barbapabba eftir Tibson/Taylor
  • Loðmundur- Amma lakkrís eftir Pierre Bailly
  • Draumaþjófurinn eftir Gunnar Helgason

Hugrún Margrét, deildarstjóri á Bókasafni Hafnarfjarðar í barna- og ungmennastarfi, segir bókalistann í Réttindahorninu svo sannarlega ekki tæmandi þótt fjöldinn sé þónokkur. „Enda fjársjóðskista bókmenntanna bæði djúp og ríkuleg. Fjöldi barnabóka bendir á bága stöðu barna. Það er svo mikilvægt að þau fái að spegla sig í þessum vanda. Þau jafnvel sjá að staða þeirra sjálfra er ekki einsdæmi.“

Þórunn og Hugrún við Réttindahornið

Raunsæi norrænna barnabóka

Hugrún tekur dæmi og nefnir raunsæi norrænna barnabóka. „Eins og Ronja ræningjadóttir. Ronja og pabbi hennar hnakkrífast. Hún er eina stelpan með mömmu sinni í stórum hópi karlmanna. Hún yfirgefur svæðið því þau fullorðnu segja að hún megi ekki eiga vin.“ Hugrún nefnir líka ósýnilega barnið í Múmínálfunum. „ Ninna verður ósýnileg því það er svo illa komið fram við hana. Hún verður hrædd við að vera til.  Svo þegar hún fær styrk fer hún að sjást aftur. “ Dæmin séu enn fleiri. Allar bækurnar í Réttindahorninu eru til útláns. Þórunn og Hugrún óska eftir tillögum frá lánþegum að titlum sem myndu sæma sér vel í hillunni. „Það skapar umræðu og víkkar sjóndeildarhring okkar allra.

Hafnarfjörður verður barnvænt samfélag

Barnvænt sveitarfélag er verkefni sem styður við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélagsins. Verkefnið byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities Initiative, sem hefur verið innleitt í þúsundum sveitarfélaga um allan heim síðan árið 1996. Innleiðing Barnasáttmálans inn í sveitarfélagið, ásamt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, er hluti af heildarstefnu Hafnarfjarðar sem gildir til ársins 2035. Í stefnunni er lögð áhersla á að viðmið Barnasáttmálans séu notuð í þjónustu við börn og ungmenni. Innleiðing Barnasáttmálans felur í sér samþykki sveitarfélagsins til að hafa sáttmálann að leiðarljósi í starfi sínu og að grunnþættirnir fimm gangi sem rauður þráður í gegnum stjórnsýslu og starfsemi sveitarfélaga. Barnvæn sveitarfélög stuðla að virkri þátttöku barna í málefnum sem snerta þau og eiga sveitarfélögin markvisst samráð við börn og ungmenni til að bæta þjónustu sína. Barnvæn sveitarfélög byggja á fimm grunnþáttum sem allir tengjast réttindum barna.

  • Þekking á réttindum barna
  • Því sem barni er fyrir bestu
  • Jafnræði – að horft sé til réttinda barna
  • Þátttöku barna
  • Barnvænni nálgun

Allt um barnvænt sveitarfélag og Hafnarfjarðarbæ

Já, lesum, fræðumst, lærum og njótum.