Ráðherra skoðaði pólska hluta Bókasafnsins Lilja Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptaráðherra, heimsótti Bókasafn Hafnarfjarðar á dögunum. Tilefnið var að Maciej Duszynsk, settur sendiherra Póllands hér á landi, vildi sýna henni öflugt safnið og ræða mikilvægi þess að halda pólskri menningu á lofti hér á landi. Sylwia Zajkowska, bókavörður, Hugrún Margrét, deildarstjóri á bókasafni – barna og ungmennastarf, og Sigrún Guðnadóttir, forstöðumaður bókasafnsins leiddu þau Lilju og Maciej um safnið í búningum, enda hrekkjavaka þann daginn. Skoðuðu bókasafnið og fengu upplýsingar „Þau fengu leiðsögn um allt safnið og við sögðum þeim frá viðburðunum sem eru á næstunni,“ segir Sigrún og ítrekar mikilvægi pólska starfsins á safninu. „Við ræddum um hvað hægt væri að gera í framtíðinni til að styrkja menningartengsl á milli Póllands og Íslands,“ segir Sigrún. Bókasafnið í Hafnarfirði er einmitt í fremstu röð þegar kemur að því að kynna pólska menningararfleið. Starfið hefur vaxið undanfarin ár. Úrvalið af pólskum bókum á safninu er afar gott og með því besta á landinu. Menningarviðburðirnir eru fjölmargir. Mikilvægur þáttur samfélagsins Markmið pólska starfsins á safninu er að gera fólki kleift að vera partur af samfélaginu en skilja sig ekki frá. Nýlega tók Sylwia Zajkowska við pólska starfinu á bókasafninu. Pólski þjóðhátíðardagurinn verður svo á bókasafninu þann 9. nóvember. Þá verða ættjarðartónleikar, fundur með pólskum rithöfundum, goðsögnin um Rzeszów drekann flutt og farið í ratleik með sporum pólsku dýranna! Kynntu þér dagskrá pólska dagsins hér.