Pólska starf bókasafnsins í fókus Mikilvægt er að vera með starfsemi sem stuðlar að fjölbreyttri þjónustu og aðgengi fyrir fólk af ólíkum menningaruppruna á bókasöfnum. Þetta sögðu þær Hugrún Margrét og Sylwia Zajkowska frá Bókasafni Hafnarfjarðar þegar þær kynntu starf sitt á ráðstefnu um bókasöfn í fjölmenningarlegu samhengi. Ráðstefnan var haldin 11. september í Bókasafni Kópavogs fyrir starfsfólk bókasafna, þá sem vinna með innflytjendum, flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd og aðra sem hafa áhuga á fjölmenningu. Á ráðstefnunni var sérstaklega fjallað um hvernig bókasöfn geta bætt þjónustu sína fyrir fólk af ólíkum menningaruppruna. Í kynningunni sögðu þær Hugrún og Sylwia frá pólska starfinu hjá Bókasafni Hafnarfjarðar og hvernig það er gott dæmi um hvernig bókasafn getur verið meira en bara bókasafn: það er rými þar sem menningarleg þátttaka, tungumálaþekking og samfélagsleg tenging sameinast. Pólska starfið felur í sér fjölbreytta dagskrá fyrir alla aldurshópa, til dæmis sögustundir, föndurstundir, námskeið og viðburðir sem styðja við pólskumælandi gesti en nýtast einnig öðrum gestum safnsins. Kynningin sýndi fram á mikilvægi pólska starfsins og tækifæri fyrir önnur bókasöfn að sækja innblástur í reynslu Hafnarfjarðar við að skapa fjölmenningarlegt og aðgengilegt safnrými. Starfið hefur vakið athygli bæði hér heima og í Póllandi. Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, sæmdi til að mynda Sigrúnu Guðnadóttur, forstöðumann Bókasafns Hafnarfjarðar, og svo einnig forvera Sylwiu í starfi, Katarzynu Chojnowska, heiðursorðu Póllands. Orðan er heiðursviðurkenning fyrir þjónustu við pólska samfélagið og Pólverja erlendis. Bókasafn Hafnarfjarðar býður reglulega upp á fjölbreytta dagskrá sem kynnir pólskan menningararf og stuðlar að aukinni aðgengilegri þjónustu fyrir pólskumælandi gesti. Komandi viðburðir á safninu eru meðal annars: 15. nóvember: Fagnað verður sjálfstæði Póllands með listum, tónlist, þjóðbúningum, sögustund á pólsku með íslenskum texta og ratleik fyrir börn, bæði á íslensku og pólsku. 6. desember: Święty Mikołaj, pólskur jólasveinn, mætir ásamt Grýlubarni og skemmtir börnum. Fjölskyldustundir: Alla mánudaga fram í desember milli kl. 16 og 18, með fjölbreyttu föndri fyrir alla. Bókasafn Hafnarfjarðar leggur áherslu á að allir viðburðir séu opnir öllum gestum að kostnaðarlausu.