Pólski dagurinn á Bókasafni Hafnarfjarðar Pólsk rokktónlist, grafík, upplestur og keramík fá sitt pláss á Bókasafni Hafnarfjarðar á laugardaginn. Pólski dagurinn verður haldinn 15. nóvember í ár frá kl. 12-16. Þúsund manns komu í fyrra. Sylwia Zajkowska, stjórnandi pólska starfsins á bókasafninu, segir ómögulegt að segja til um hversu mörg koma í ár. „Við höfum meðal annars hengt upp plaköt í pólskum verslunum á höfuðborgarsvæðinu og sett inn á íbúasíður. Ég vona að sem flest komi,“ segir hún. Dagskrá 13.00 – Karasie rock ‘n’ roll tónleikar 14.00 Karolina Kryspowicka-Lisińska les ævintýri fyrir börn 12.00-16.00 Sýning á keramik, skartgripum og grafík Izabela Hadrian Magdalena Żyła Sara Nełęcz-Nieniewska Weronika Świerczyna Wioletta Jakubiuk Zuzanna Wrona Dagskráin þétt og þemað í ár er pólsk blóm og sambærilega íslensk blóm, en var hin ýmsu dýr í fyrra. „Já, við erum með falleg blóm í Póllandi, sum svipuð og hér, önnur ekki,“ segir Sylwia og að þemað brjóti ísinn, gefi færi á samtalinu og kveiki áhuga. „Kannski geta Íslendingar kynnst okkur betur þegar við höldum Pólska daginn.“ Hún hefur búið til ratleik sem börn og fjölskyldur geta tekið þátt í, bæði á pólsku og íslensku á bókasafninu. Pólski dagurinn hefur náð langt út fyrir Hafnarfjörð. Fólk kemur alls staðar að af landinu. „Mér finnst mikilvægt að við getum verið saman. Við getum talað pólsku saman. Ég skrifaði bók í háskóla svo Íslendingar geti lært pólsku. Mér finnst gaman að heyra Íslendinga tala pólsku,“ segir hún. Dagurinn sé sniðinn að því að hitta sitt fólk og tala pólsku. „Það er mikilvægt að við getum verið saman. Stundum er erfitt að búa erlendis, en þegar við sjáum fyrirmyndir í öðrum og kynnumst því hvað fólk er að gera, þá gefur það mikið. Á Pólska deginum getum við sýnt starfið okkar. Við vinnum ekki bara hér á Íslandi. Við lifum fjölbreyttu lífi her á landi og eigum áhugamál,“ segir Sylwia sem er ekki aðeins bókavöður á Bókasafni Hafnarfjarðar heldur einnig leikkona. „Hér á Íslandi má skapa sér fjölbreytt líf. Ef þú til dæmis málar, þá er mögulegt að sýna vekið hér á landi. Þú þarft ekki að vera í Póllandi,“ segir hún. Sjálf gerði Sylwia listaverk fyrir daginn. Risablóm úr kreppappír sem hún stendur hjá á myndinni. „Já, það tók sinn tíma. En þetta er eitt af því sem ég elska að gera.“ 15. nóvember kl. 12:00 til 16:00 á Bókasafni Hafnarfjarðar! Þæfingarsmiðja og pólsk mynstur í Hafnarborg kl. 13-15 Pólski dagurinn teygir sig í Hafnarborg á laugardag. Milli kl. 13-15 býður Hafnarborg pólskumælandi fjölskyldum að taka þátt í þæfingarsmiðju, undir leiðsögn listakonunnar Agötu Mickiewicz, þar sem þátttakendur munu búa til lítil veggteppi úr ull, innblásin af pólskum þjóðlegum mynstrum. Tungumál smiðjunnar eru pólska, íslenska og enska. Kynnumst saman hinni heillandi kúnst að þæfa! Í smiðjunni munu þátttakendur fá að spreyta sig á hefðbundinni aðferð við votþæfingu – þar sem notað er heitt vatn, sápa og núningur til að flétta saman og þétta ullarþræði í mjúkt og litríkt efni. Hvert barn fær tækifæri til að hanna og skapa sitt eigið veggteppi, innblásið af pólskri þjóðlist og menningu. Á mínu máli er viðburðaröð sem miðar að því að auka aðgengi fólks með margs konar bakgrunn að Hafnarborg með því að bjóða gesti velkomna á ólíkum tungumálum. Verkefnið er styrkt af Safnasjóði. Smiðjan fer fram á jarðhæð Hafnarborgar og er opin öllum aldurshópum. Engrar fyrri kunnáttu í listsköpun er krafist, en börn skulu vera í fylgd með foreldri eða forráðamanni. Eins og alltaf er þátttaka í smiðjum sem og aðgangur að sýningum Hafnarborgar gestum að kostnaðarlausu.