Stórt ár hjá Bókasafni Hafnarfjarðar „Heimar og himingeimar stóðu upp úr á árinu 2025. Aðsóknin á þessa búninga- og leikjasamkomu fór fram úr okkar björtustu vonum. Við segjum 10 þúsund og vitum að það er svo sannarlega ekki ofáætlað,“ segir Sigrún Guðnadóttir, forstöðumaður Bókasafns Hafnarfjarðar, beðin um að nefna hápunkt ársins. „Heimarnir eru birtingamynd nýrra tíma á bókasöfnum landsins. Ævintýri bókanna lifna við. Hér eiga allir sinn stað og heim,“ segir Sigrún. „Hátíðinn er komin til að vera og verður næst haldin fyrstu helgina í september á nýja safninu okkar í Firði.“ Já, það er stórt ár framundan. Bókasafnið flytur í Fjörð, stækkar, nútímavæðist og verður sem fyrr vinsæll áningarstaður. Fleiri heimsóttu bókasafnið „Gestafjöldinn var 126 þúsund í ár, og jókst um 19%,“ segir Sigrún um aðsóknina á safnið. „Útlán voru 128 þúsund og jukust um 4%.“ Það er ekki eina aukningin sem Bókasafnið sá í ár. Sókn á viðburði jókst um 81% á milli ára. „Þetta eru allir viðburðirnir okkar; fjölskyldustundir, sögustundir, rithöfundar í heimsókn. Alls konar.“ Sigrún nefnir fleiri sigra á árinu. Bóksafnið hafi verið á faraldsfæti og heimsótt Vísindavökuna í Hörpu. „Þar var Hugrún Margrét með þemakassana sína, hennar eigin frumkvöðlastarfsemi hér sem hefur slegið í gegn. Frábært verkefni sem fer í skóla og leikskóla bæjarins, Öll slott uppbókuð og heimsóttu til að mynda 3.000 hornið okkar á Vísindavökunni.“ Starf sem teygir sig víða Fréttaritara finnst nú forstöðumaðurinn gleyma einu lykilatriði ársins. Pólsku heiðursviðurkenningunni sem hún og Katarzyna Chojnowska, Kasia, fyrrum starfsmaður Bóksafns Hafnarfjarðar, fengu fyrir pólsku menningarviðburðina og starfið á bókasafninu. Sigrún er stolt og nú hefur Sylwia Zajkowska tekið við starfinu á safninu. „Við höldum pólskri menningu á lofti. Sylwia horfir til nútímans og þess sem til dæmis pólskir listamenn gera á Íslandi. Það er flott,“ segir Sigrún. „Já, við höldum áfram á sömu braut og gefum öllum landsmönnum færi á að koma á bókasafnið. Við hlökkum til að taka á móti Hafnfirðingum og gestum á nýja bókasafninu okkar í Firði. Þetta verður menningarhús, þar sem hittumst og eigum góðar stundir.“ Frétt birt á vef Hafnarfjarðarbæjar 14.01.2026