Heimar og himingeimar sprengdu gleðiskalann

Fréttir

10 þúsund heimsóknir voru á hátíðina Heima og himingeima sem haldin var á Bókasafni Hafnarfjarðar 29. – 30. ágúst 2025. Hátíðin var afar vegleg.

10 þúsund heimsóknir voru á hátíðina Heima og himingeima sem haldin var á Bókasafni Hafnarfjarðar 29. – 30. ágúst 2025. Hátíðin var afar vegleg.

„Allt fór fram úr björtustu vonum okkar. Það eru allir peppaðir að endurtaka leikinn að ári,“ segir Unnur Helga Möller, viðburðastjóri hjá Bókasafni Hafnarfjarðar og framkvæmdastjóri hátíðarinnar.

Sjá mátti geimskip úr Star Wars, R2-D2-vélmennið úr sömu myndum, DeLorean tímaflökkunarbílinn eins og í Back to the Future-kvikmyndunum frægu og fjöldann allan af lörpurum, sem og öðrum í búningum, á þessari einstöku leikja- og búningasamkomu.

„Mörg komu aftur og aftur alla helgina. Húsið var troðið allan tímann og það var brjálæðislega gaman. Veðrið var yndislegt og mikið fjör á planinu fyrir framan safnið,“ segir Unnur.

En hvað stóð upp úr? „Hvað allir voru hamingjusamir,“ svarar Unnur um hæl. „Stemningin og kærleikurinn sem myndaðist, gleðin sem var áþreifanleg. Hún er einmitt ástæðan fyrir því að við erum að þessu. Leggjum hjarta og sál í þessa hátíð.“ Öll sem komu að hátíðinni hafi lagt hart að sér til að sjá þennan draum um glæsilega búninga- og leikjahátíð hér á landi verða að veruleika í annað sinn á Bókasafni Hafnarfjarðar.

„Já, við lögðum blóð, svita og tár í hátíðina. Mestan svita, smá blóð en fæst tár,“ segir hún og hlær um leið og hún þakkar öllum sem lögðu sitt af mörkum. „Strax er spurt hvað við ætlum að gera á næsta ári. Vá, við stefnum hærra,“ segir hún og setur markið hátt, því hátíðin var einkar glæsileg með fjölda búningahönnuða og leikjaheima.

„Það eru fleiri heimar sem hægt er að skoða. Svo eigum við heilt geimskip í tónlistardeildinni,“ segir Unnur. Falast hafi verið eftir þessu Star Wars-geimskipi á erlenda hátíð.

„Við unnum öll í þessu saman. Ólíkir heimar unnu saman. Svona verkefni getur enginn gert nema að allir vinni saman. Þetta er gífurlega stórt þar sem allir ákváðu að koma og gefa af sér gleði. Með því að deila því sem gerir þau glöð; sem er larp, Star Wars heimur, geislasverð, K-Pop, búa til búninga og að við getum öll verið á þann máta sem hver vill og gefið af okkur í leiðinni.“

Rec Media fangaði gleðina alla helgina og tók myndir. Njótum afrakstursins saman.